Fara á efnissvæði
IS EN PL
Sævar
Fréttir | 06.02.2021

Sigur gegn KR í æfingaleik

KR 1 - 3 Leiknir
0-1 Dylan Chiazor
1-1 Ægir Jarl Jónasson
1-2 Sævar Atli Magnússon
1-3 Róbert Quental

Leiknir vann 3-1 útisigur gegn KR á gervigrasvellinum í Vesturbæ. Um var að ræða vináttuleik til að stilla saman strengi.

Dylan Chiazor kom Leikni yfir snemma leiks, KR jafnaði en Sævar Atli Magnússon og Róbert Quental skoruðu í seinni hálfleik.

Umfjöllun af leiknisljonin.net:
Okkar menn kíktu í vesturbæinn í morgun og unnu skemmtilegan æfingaleikssigur gegn sterku liði KR í flottu vetrarveðri. Fínasta veganesti fyrir Lengjubikarinn sem hefst á föstudagskvöldið næstkomandi.

Leiknir er með nokkra leikmenn til reynslu sem við þekkjum mismikið og var leikurinn gott tækifæri fyrir þá að sanna sig. Dylan Chiazor þekkjum við en hann skoraði strax á fyrstu mínútu leiksins og hefði átt að bæta við eftir gott samspil síðar í fyrri hálfleik. Hann kemur hungraður til landsins að sanna gildi sitt fyrir félagið.

Oumar Diouck, Belginn sem spilaði á síðasta tímabili fyrir KF, var mikið í spilinu en náði ekki að skapa sér eða samherjum nein teljandi tækifæri. Hann þarf líklega aðeins lengri tíma til að koma sér í gott leikform.

Í treyju númer 4 var svo mættur huldumaður sem ekki hefur áður verið nefndur á nafn. Það er Loftur Páll Eiríksson, reynslumikill norðlenskur miðvörður sem hefur verið á mála hjá Þór Akureyri síðustu ár. Hann er 28 ára með 147 leiki að baki í næstefstu deild og 190 leiki í heild fyrir Þór og Tindastól. Kauði hefur aldrei spilað í efstu deild en miðað við frammistöðuna í dag og einstakt lag Sigga og félaga á að finna öflugan liðsauka, gæti þeirri eyðimerkurgöngu hans verið lokið. Lofar í það minnsta góðu.

Patryk Hryniewicki var í miðverði með reynsluboltanum og stóð sig með prýði. Hann hefur verið að fá tækifæri í byrjunarliðinu og gæti vel spilað rullu sem varnagli fyrir þá Bjarka, Binna og þá Loft ef það verður neglt niður.

Davíð Júlían spilaði allan leikinn á miðjunni, aðeins 17 ára gamall á árinu og með pung á við þrítugan mann. Undirritaður hefur ekki þorað að segja það upphátt hingað til en fyrst fleiri voru á sama máli í einangruðum hópi áhorfenda, þá stefnir einfaldlega í það að þessi strákur fái að tikka inn fyrstu Pepsi-Max leikjunum sínum á þessu ári. Líklegast af bekknum en gæðin leyna sér ekki. Hann er sprækur upp og niður miðjuna og til mikilla ama fyrir alla andstæðinga hingað til í vetur.

Það var gaman að sjá Guy aftur í grænu markmannstreyjunni og stóð hann sig vel þrátt fyrir að mark heimamanna hefði maður vilja sjá í hönskunum hans. Viktor Freyr tók við hönskunum í seinni hálfleik og stóð sig með mikilli prýði einnig. Hann tók vítaspyrnumann heimamanna t.d. á taugum og fékk hann til að skjóta framhjá í seinni.

Yfir það heila mjög flottur leikur hjá okkar mönnum og uppskera þeir sjálfstraustsbyggjandi leik áður en við tekur enn eitt upphitunarmótið í Lengjubikarnum. Blikar á föstudag. Heitt lið sem verður áhugavert að máta sig við. Við munum ná spjalli af Sigga í vikunni og hlera hvernig hann ætlar að nálgast þann leik og kannski mótið í heild.