Fara á efnissvæði
IS EN PL
Photo 11.7.2022, 19 21 17
Fréttir | 11.07.2022

Stjarnan 0-3 Leiknir

Okkar menn hófu seinni helming venjulegs leiktímabils í Bestu deildinni með því að bjóða uppá sýningu á Samsungvellinum í kvöld þegar þeir tryggðu sér stigin þrjú með glæsibrag og komu sér í leiðinni uppúr fallsæti í fyrsta sinn á leiktímabilinu.

Það er engum blöðum um það að flétta að róðurinn hefur verið erfiður í byrjun tímabilsins og þó fyrsti sigur tímabilsins hafi unnist í síðustu viku á heimavelli var ekkert sem benti sérstaklega til þess að hægt væri að treysta á úrslit á útivelli enda hafði Leiknir ekki unnið leik í efstu deild nema einu sinni fyrir þennan leik og var það einmitt fyrsti leikur félagsins í efstu, gegn Val á Vodafonevellinum vorið 2015. 

En það má með sanni segja að fyrsti sigurinn í síðustu viku gæti hafa kveikt þann neista sem var það eina sem vantaði uppá góðan stíganda innan liðsins og allt í einu fara allir frasarnir hans Sigga um að gögnin segi okkur vera betri en í fyrra osfrv að hitta í mark. Maðurinn er hreinræktaður snillingur sem snéri allhressilega á Gústa Gylfa á bekk heimamanna í kvöld. 

Frá fyrsti sekúndu voru Leiknismenn betra liðið og átu boltann af Stjörnumönnum alls staðar þar sem þeir þorðu með hann. Grimmdin var yfirþyrmandi og kannski mestar áhyggjur í stúkunni voru að ekki væri hægt að halda við þessu tempói án þess að fá mark fyrir enda hafa þau ekki komið á silfurfati í sumar. 

En það hefur sjaldan verið fagnað eins mikið í stúkunni eins og á 7.mínútu þegar einn elskaðasti þjónn félagsins skoraði sitt langþráða og fyrsta mark fyrir félagið í alvöru keppnis leik. Kapteinninn sjálfur, Bjarki Aðalsteins, gerði sér lítið fyrir og smellti boltanum í netið með hægri löppinni eftir hornspyrnu frá Mikkel Jakobsen. Tryllt fagnaðarlæti innan vallar sem utan og strákarnir loksins að uppskera. 

Eins og margoft hefur komið fram hefur okkur illa haldist á forrystu í sumar, þá sjaldan við höfum tekið hana. Það var þó ekki að sjá á liðinu í kvöld því menn héldu uppi tempóinu og sýndu tennurnar alls staðar á vellinum. Emil Berger og Gyrðir Hrafn króuðu menn ítrekað af og tættu þá svo í sig á meðan Sindri Björns byrjaði spilið. 

Annað markið kom svo á 33. mínútu þegar Jakobsen átti aðra góða fyrirgjöf og Róbert Hauks kom á sprettinum inn í teig, óvaldaður og stýrði boltanum í netið af harðfylgi. Hann hefur verið óþreytandi í baráttunni í allt sumar og það er gaman að sjá hann fá sitt annað mark í sumar. Þau verða fleiri enda berst drengurinn eins og ljón fyrir öllum sínum færum. 

Með tveggja marka mun í fyrri hálfleik gegn sterku liði á útivelli hefðu flestir reynt að ná andanum en okkar menn eru greinilega búnir að fá sig fullsadda af því að missa hlutina niður og sýna á sér bilbug. Fulla ferð áfram var það og enn bættist í mörkin fyrir leikhlé þegar Mikkel Dahl setti boltann framhjá markverðinum þegar allir héldu að hann væri rangstæður um ca 5 metra. Binni Hlö hafði sent boltann í gegn og sökum þess að Robbi snerti boltann ekki þegar hann átti leið hjá honum, þá var Dahl réttstæður og verðum við að taka ofan fyrir aðstoðardómaranum fyrir að grípa það. Sá danski með sitt 3 mark í sumar og við sjáum sjálstraustið hans rísa. 

 

0-3 í hálfleik og Ghetto Boys ásamt fylgdarliði sínu í himnaríki. En það hlaut að koma bakslag. Menn láta ekki niðurlægja sig þegjandi og hljóðalaust á heimavelli svona. Eða hvað? Gústi Gylfa sendi nýja vopnið sitt inná í hálfleik. Danna, nokkurn, Finns. Hann átti góða spretti en eins og okkur var lofað, fékk hann engan afslátt fyrir að vera fyrrum Leiknismaður. Varnarmennirnir okkar og allir á vellinum létu hann finna fyrir því, ekki síst Ghetto-strákarnir sem minntu hann á, með réttu eða röngu, að nánast allir í hópnum okkar eru "betri en þú". 

Skemmst er frá því að segja að auðvitað skall hurð nærri hælum annað slagið en með flottum töktum frá Viktori Frey og samheldni í varnarvinnunni tókst að hala hreinu anna leikinn í röð og sigla þessu heim í seinni hálfleik. 

Stórkostleg kvöldstund í Garðabæ og virkilega gaman að sjá leikmenn og stuðningsmenn, að ógleymdum þjálfurum, geta fagnað vel og innilega á ný. Liðið komið uppúr fallsæti og þó stemningin hafi aldrei súrnað í hópnum hingað til, má gera ráð fyrir að hún nái nú nýjum hæðum og menn ná vonandi að klára færi sín áfram eins vel og í kvöld. 

Næsti leikur er gegn KA-mönnum á sunnudaginn og við viljum að sjálfsögðu meira svona þá. 

#StoltBreiðholts

 

Skýrsla .net

Skýrsla mbl.is

Skýrsla visir.is

Viðtal við Robba