Tæpt tap í miklum baráttuleik
Leiknir 0:1 Fjölnir
Domusnovavöllurinn í Breiðholti, fimmtudaginn 11. júlí 2024.
12. umferð í Lengjudeildinni. Dómari: Erlendur Eiríksson.
Það var haustlegt veður í Breiðholtinu þegar Leiknir tók á mót efsta liði Lengjudeildarinnar á fimmtudagskvöldi. Eftir töluverða rigningu yfir daginn var völlurinn blautur en það rigndi þó ekki mikið yfir leiknum sjálfum en himinninn var grár og vindur nokkur. Leiknir náði þó að sýna fínt spil heilt yfir í leiknum, hélt boltanum vel og börðust fyrir hvern annan. En líkt og í fyrri leiknum gegn Fjölni var það Fjölnismaðurinn Dagur Ingi Axelsson sem skoraði eina mark leiksins þegar boltinn barst til hans á fjærstöng í vítateig Leiknis á 24. mínútu og hann kláraði færið vel. Leiknir er því áfram í 10. sæti deildarinnar með 12 stig eftir 12 leiki.
Fram á við var Leiknisliðið duglegt að reyna að skapa sér færi en saknaði mikið Omar Sowe sem gat ekki tekið þátt í þessum leik vegna meiðsla. Fjölnisliðið sýndi með vel skipulögðum varnarleik að það er ekki tilviljun að þeir séu í efsta sæti Lengjudeildarinnar. Það var erfitt að finna glufur á vörninni þeirra og þegar það tókst var markvörðurinn Halldór Snær mjög öflugur að verja.
Að sama skapi var varnarleikur Leiknis til mikils sóma. Þeir vilja sjálfsagt fara betur yfir það hvernig mark leiksins kom til en fyrir utan það náði Leiknir vel að koma í veg fyrir að Fjölnir skapaði mikið og markahæsti leikmaður Lengjudeildarinnar, Máni Austmann, fékk úr litlu að moða í baráttunni við varnarlínu Leiknis. Viktor Freyr var flottur fyrir aftan hana. Okkar menn alla leið fram á fremstu menn hlupu mikið og börðust vel í þessum leik. Líkt og í leiknum gegn ÍBV þá átti liðið alveg skilið að fá meira út úr leiknum miðað við það sem þeir lögðu í hann.
Það boðar gott fyrir framhaldið og þá tíu leiki sem eftir eru af Lengjudeildinni í sumar. Það eru enn 30 stig í pottinum og nóg af tækifærum til að klifra upp töfluna. Næsti leikur er áhugaverður útileikur gegn sprækum Njarðvíkingum sem hafa komið skemmtilega á óvart í ár. Sá leikur verður á fimmtudag í næstu viku.
Umfjöllun um leikinn á Fótbolta.net
Viðtal við Ólaf Hrannar eftir leik
Byrjunarlið Leiknis gegn Fjölni:
1 - Viktor Freyr Sigurðsson
5 - Daði Bærings Halldórsson (fyrirliði)
6 - Andi Hoti
7 - Róbert Quental Árnason
8 - Sindri Björnsson
10 - Shkelzen Veseli
18 - Marko Zivkovic
19 - Jón Hrafn Barkarson
20 - Hjalti Sigurðsson
22 - Þorsteinn Emil Jónsson
44 - Aron Einarsson
Varamenn:
92 - Sigurður Gunnar Jónsson (inn á 71' fyrir Marko)
88 - Stefan Bilic (inn á 75' fyrir Þorstein Emil)