Fara á efnissvæði
IS EN PL
Fréttir | 23.08.2024

Þór kemur í heimsókn í Breiðholtið

Eftir algjört jafnteflisleysi hjá Leikni fyrstu fimmtán umferðir Lengjudeildarinnar hefur liðið nú gert þrjú jafntefli í röð. Leikmennirnir voru ekki sáttir við að missa síðasta leik niður í jafntefli á lokamínútunum og eru án efa staðráðnir í að bæta fyrir það í næsta leik. Sá leikur verður hörku barátta gegn strákunum hans Sigga Höskulds í Þór Akureyri. Leikurinn verður spilaður í Breiðholtinu laugardaginn 24. ágúst og hefst klukkan 16:00. Dómari leiksins verður Þórður Þorsteinn Þórðarson. Miðasalan er sem fyrr á Stubbi (hlekkur hér).

Veðurstofan spáir ágætis fótboltaveðri, 10 gráðu hita með norðan 4 metrum á sekúndu og alskýjuðum himni. Þetta er tilvalin leið til að halda upp á Menningarnótt í Reykjavík, blanda menningarlegum fótboltaleik inn í aðra menningarlega viðburði dagsins. Vonandi fáum við góða flugeldasýningu inni á vellinum frá okkar mönnum í Leikni.

Liðin eru hlið við hlið í deildinni, Þór í 8. sætinu með 19 stig og Leiknir í 9. sæti með 18 stig. Markatala Þórs er 26:31 á meðan markatala Leiknis er 22:29.

Markahæstu leikmenn Leiknis eru Omar Sowe með 11 mörk, Shkelzen Veseli með 3 og Róbertarnir, Hauksson og Quental, hafa báðir skorað 2 mörk. Hjá Þór er Rafael Alexandre markahæstur með 8 mörk, á eftir honum kemur Birkir Heimisson með 5 mörk og Sigfús Fannar Gunnarsson með 3 mörk.

Síðast þegar liðin mættust þá vann Leiknir góðan 1:2 sigur með mörkum frá Omar Sowe og Shkelzen Veseli.

Nú eru aðeins fjórir leikir eftir af tímabilinu hjá Leikni og við viljum öll sjá liðið okkar enda tímabilið vel og fara kát inn í haustið. Mætum og styðjum, hvetjum og syngjum, skemmtum okkur saman og siglum þessu tímabili í höfn í sameiningu.

 

Áfram Leiknir!

 

Miðasalan á Stubb.

Vefverslun Leiknis.