Þróttur 1-3 Leiknir
Fyrsti leikurinn í Lengjudeildinni fór fram síðastaliðið föstudagskvöld á gamla Valbjarnarvellinum í Laugardal þar sem Þróttur Reykjavík byrjar tímabilið. Okkar menn tryggðu sér stigin þrjú við mikla kátínu viðstaddra og ekki var verra að sjá þá skora 3 mörk í leiðinni.
Byrjunarliðið samanstóð af 7 uppöldum leikmönnum á ýmsum aldri, leitt af Daða Bærings með fyriliðabandið á miðjunni. Það er ljóst að Leiknisgildin munu vera í hávegum höfð í sumar með sterkan liðsauka til að fylla í skörðin þar sem með þarf.
Danni Finns skoraði fyrsta mark leiksins úr föstu leikatriði eftir horn á 6. mínútu og hinir rúmlega 200 Leiknismenn í tímabundinni stúkunni kættust innilega yfir því. Ekki tókst þó að kæfa mótstöðu heimamanna eftir það og náðu þeir að stríða okkar mönnum reglulega og við stóð í hálfleik.
Í seinni hálfleik náðu okkar menn að láta gæði sín telja og voru það Hjalti Sigurðsson og Omar Sowe sem gerðu út um leikinn með mörkum sínum síðasta kortérið. Verðskulduð 3 stig í fyrsta leik sem er alltaf erfiður viðureignar.
Næst er það fyrsti heimaleikur sumarsins á Domusnovavellinum á föstudaginn næstkomandi. Sparkað verður af stað 19:15 en auðvitað verða ljúfengar veigar í boði í klúbbhúsinu fyrir leik. Árskortasalan stendur sem hæst akkúrat núna og hvetjum við allt Leiknisfólk að styðja við starf félagsins með kaupum á korti hér.
#StoltBreiðholts