Tveir Danir skrifa undir og Binni framlengir
Við erum í óða önn að styrkja okkur fyrir næsta sumar í efstu deild og höfum fengið tvo danska leikmenn sem spiluðu í færeysku deildinni í fyrra.
Þá hefur einn af okkar dáðustu sonum, varnarmaðurinn öflugi Brynjar Hlöðversson, skrifað undir nýjan samning.
Sóknarmaðurinn Mikkel Dahl kemur frá HB í Þórshöfn en hann setti markamet í færeysku deildinni. Þessi 28 ára leikmaður spilaði í eitt og hálft ár í Færeyjum og skoraði alls 41 mark í 38 leikjum.
Þá kemur Mikkel Jakobsen frá NSÍ Runavík. Jakobsen er 22 ára og var í margrómuðu unglingastarfi Midtjylland. Hann er vinstri kantmaður og miðjumaður sem lék á sínum tíma fyrir U16 landslið.
Samningar dönsku leikmannana eru til tveggja ára.