Tveir sigrar í röð
Leiknir 3:1 Þróttur
Domusnovavöllurinn í Breiðholti, miðvikudaginn 26. júní 2024.
9. umferð í Lengjudeildinni. Dómari: Arnar Ingi Ingvarsson.
Mörk Leiknis:
7' - Jón Hrafn Barkarson
13' - Shkelzen Veseli
90'+2 - Omar Sowe
Það var sól og blíða í Breiðholtinu þegar Leiknir hélt áfram að skína inni á fótboltavellinum með flottum leik og góðri frammistöðu hjá leikmönnunum sem tóku þátt í sigrinum gegn Þrótti. Með sigrinum fór Leiknir í 9 stig og upp í 10. sæti. Framundan eru tveir útileikir í röð næstu tvær helgar, fyrst á Dalvík og svo í Vestmannaeyjum.
Leikurinn byrjaði fjörlega og bæði lið greinilega mætt í Breiðholtsblíðuna til að spila sóknarbolta. Þróttur fékk færi á upphafsmínútunum en það var Leiknir sem náði að skora tvö mörk á fyrsta korterinu. Fyrst náði Jón Hrafn Barkarson að skora þegar hann var á réttum stað til að fylgja eftir því að markvörður Þróttar varði gott skot frá Omari Sowe.
Annað mark leiksins kom eftir flotta sókn frá Leikni. Omar Sowe fékk boltann eftir innkast, brunaði upp kantinn hægra megin og átti flotta fyrirgjöf beint inn í hlaupið hjá Shkelzen Veseli sem skoraði í sínum þriðja leik í röð með góðu slútti í fyrstu snertingu. Mjög vel gert hjá bæði Omari og Shkelzen.
Eftir þetta varðist Leiknir vel og fékk þó nokkur færi í seinni hálfleik til að bæta við mörkum. En það var Þróttur sem skoraði þriðja mark leiksins, Jorgen Pettersen skallaði þá inn fyrirgjöf frá Ísak Daða Ívarssyni og setti smá spennu í lokamínúturnar.
En sú spenna varði þó aðeins í fimm mínútur áður en Omar Sowe kórónaði frábæran leik sinn með marki í uppbótartíma. Þá náði Leiknir aftur góðri skyndisókn, Shkelzen fékk boltann á miðjum vellinum, skipti yfir á Þorstein Emil á kantinum sem fann Omar inni í teig með flottir fyrirgjöf. Omar kom sér í skotfæri og kláraði bæði færið og leikinn með góðu marki. Omar var þarna að skora í þriðja leiknum í röð sem hann spilar gegn Þrótti eftir að hafa skorað í báðum leikjunum gegn þeim í fyrra.
Á sunnudag er næsti leikur, á útivelli gegn Dalvík/Reyni.
Leikurinn í heild sinni á YouTube-rás Lengjudeildarinnar
Umfjöllun um leikinn á Fótbolta.net
Viðtal við Ólaf Hrannar eftir leik
Byrjunarlið Leiknis gegn Þrótti:
1 - Viktor Freyr Sigurðsson
5 - Daði Bærings Halldórsson (fyrirliði)
6 - Andi Hoti
7 - Róbert Quental Árnason
8 - Sindri Björnsson
10 - Shkelzen Veseli
19 - Jón Hrafn Barkarson
20 - Hjalti Sigurðsson
23 - Arnór Ingi Kristinsson
44 - Aron Einarsson
67 - Omar Sowe
Varamenn:
22 - Þorsteinn Emil Jónsson (inn á 60' fyrir Jón Hrafn)
80 - Karan Gurung (inn á 74' fyrir Aron Einars)
88 - Stefan Bilic (inn á 90'+5 fyrir Róbert Quental)
92 - Sigurður Gunnar Jónsson (inn á 90'+5 fyrir Hjalta)