Fara á efnissvæði
IS EN PL
Photo 20.9.2023, 18 17 54
Fréttir | 21.09.2023

Umspil: Leiknir 1-2 Afturelding

Fyrri leikur umspilsins gegn Aftureldingu í Lengjudeildinni fór fram í gær og lauk með ósigri, 1-2 eftir hörkuleik. Útimarkareglan var afnumin fyrir nokkru og því hefur lítið breyst. Við þurfum að safna liði og fjölmenna í Mosfellsbæinn á sunnudag og klára verkefnið. Það er bara kominn hálfleikur í einvíginu.

Breiðholtið skartaði sínu allra fegursta á þessum septembereftirmiðdegi fyrir síðasta heimaleik ársins hjá Meistaraflokki og áhorfendur sem fjölmenntu á Domusnovavöllinn urðu ekki fyrir vonbrigðum með knattspyrnuna sem boðið var uppá þó úrslitin hafi ekki verið okkur hliðholl. 

Ghetto boys héldu stemningunni í gangi og börðust í stúkunni við stuðningssveit gestanna. Sú barátta heldur áfram á sunnudag að sjálfsögðu. 
Magnús Már, þjálfari Mosfellinga, breytti nokkuð um taktík í þessum leik og tókst þeim vel að loka svæðum og kæfa svæði fyrir okkar menn þartil Rasmuss Christiansen náði forrystu fyrir gestina á 24. mínutu með skallamarki eftir klafst í teig okkar manna. Eftir jafna en kaflaskipta baráttu milli liðanna var þetta líklega það síðasta sem okkar menn þurftu því gestirnir héldu þá áfram að leyfa sér að sitja nokkuð til baka og láta okkar menn spyrja sig spurninga. 

Maður leiksins var ótvírætt markvörður gestanna sem hélt þeim inni í leiknum á meðan þeir sóttu svo hraðaupphlaup á okkar menn sem sluppu sömuleiðis með skrekkinn annað slagið. Það kom svo að því að Mosfellingar tvöfölduðu muninn á 76. mínútu og var Ásgeir Marteinsson þar að verki. Þá var róðurinn orðinn þungur og klárt að erfitt yrði að snúa taflinu við ef við þetta sæti á heimavelli. 

En lið sem hefur Omar Sowe innan sinna raða er aldrei úr leik og það kom enn eina ferðina á daginn. Kappinn átti eitt eða tvö skot í varnarmenn gestanna inni í teig þeirra áður en veggurinn brast og hann náði að setj´ann framhjá Galchuk í markinu á 85. mínútu leiksins. 

Þar við sat og nú er hálfleikur í einvíginu. Útivallarmörk telja ekki tvöfalt eins og í gamla daga svo það er bara game on fyrir okkar menn og þó það sé smá hola veginum er það ekkert sem Leiknismenn þekkja ekki vel. Vigfús og Donni leggja upp í nýjan leik á sunnudag og strákarnir munu berjast eins og ljón fyrir ferð á Laugardalsvöll í lok mánaðarins. 

Um leið og við þökkum stuðningsfólkinu kærlega fyrir mætinguna og stuðninginn í gær, óskum við að sjálfsögðu eftir því að endurtaka leikinn klukkan 14:00 á sunnudag í Mosfellsbæ. 

#StoltiðUpp