Ungir Leiknismenn lánaðir í Lengjudeildina
Leiknir hefur lánað nokkra af félagsins efnilegustu leikmönnum til liða í næstefstu deild þar sem vonast er til að þeir taki næsta þroskastig á ferlinum með því að reyna fyrir sér gegn sterkum andstæðingum.
Þeir Shkelzen Veseli og Davíð Júlían Jónsson munu spreyta sig í appelsínugulum litum Þrótts í Vogum við Vatnsleysuströnd. Báðir verða þeir 18 ára í júní.
Andi Hoti, miðvörður, er kominn til Magnúsar Más í Mosfellsbæinn þar sem hann mun spreyta sig í miðverðinum hjá Aftureldingu í sumar. Hann varð 18 ára í desember síðastliðnum og er einmitt með U-19 ára landsliði Íslands núna í Króatíu.
Róbert Vattnes Mba Nto er svo kominn til KV sem eru nýliðar í næstefstu deild. Róbert er hægri bakvörður sem varð tvítugur í haust.
Að sjálfsögðu fylgjumst við grant með þessum ungu mönnum í allt sumar og óskum þeim öllum góðs gengis og fullt af mínútum í reynslubankann.
#Stolt Breiðholts