Viðtal við Krissa Konn
Kristófer Konráðsson er á leið til Leiknis frá Stjörnunni á lánssamningi út tímabilið. Þetta var tilkynnt í síðustu viku. Hann er að klára nám í Bandaríkjunum fyrst en gaf sér tíma að svara nokkrum spurningum fyrir Leiknisfólk:
Þú ert að klára nám í Boston College. Hvað ertu búinn að vera að stúdera?
Ég er búinn að vera læra markaðs- og fjármálafræði.
Fótboltalið skólans spilaði síðast keppnisleik í nóvember. Hvernig ertu að halda þér í fótboltaformi fyrir sumarið?
Regular seasonið okkar klárast fyrir áramót, en liðið hefur verið að æfa 5-6x í viku og spilað nokkra æfingaleiki. Vorönnin er alltaf preseason hérna úti þannig það hefur ekki verið nein pása.
Þú virðist vera góður vinur Austmann-bræðra. Hvað gerir ykkur að svona góðum vinum og áttu einhverja skemmtilega sögu af ykkur?
Jú ég hef ekki losnað við þá síðan ég neyddist að taka þá að mér þegar þeir fluttu yfir í Garðabæinn 10 ára gamlir. Höfum verið bestu vinir síðan þannig sögurnar eru alltof margar til að velja úr.
Þekkir þú til hinna Stjörnumannanna í hópnum okkar (Arnór, Jón Hrafn og Bjarki Arnaldar)?
Jájájá heldur betur, ég er orðinn svo gamall að ég þjálfaði alla þessa drengi fyrir einhverjum árum síðan. Hlakka til að sjá hvort þeir hafi hlustað eitthvað á mig og það er eins gott að þeir lærðu eitthvað!
Siggi var víst styrktarþjálfari þinn þegar hann var hjá Stjörnunni. Sástu þá fyrir þér að hann yrði besti þjálfari á Íslandi innan nokkurra ára?
Heyrðu jú kynntist fyrst Sigga þegar hann var styrktarþjálfari yngriflokka í Stjörnunni. Ég æfði hinsvegar lítið sem ekkert með 2.flokki á þeim tíma þannig ég vann lítið með honum en af öllu sem ég heyrði af á þeim tíma þá kemur það mér alls ekki á óvart, enda toppmaður.
Þú hefur væntanlega ekki æft neitt með Stjörnuliði Gústa Gylfa og kemur á láni til Leiknis. Samningur þinn við Stjörnuna rennur út í lok sumars. Sérðu fyrir þér að ef sumarið gengur vel, að þú myndi skipta alveg yfir?
Ég hef ekki tekið neina ákvörðun með framtíðina að svo stöddu, mínar áherslur voru að finna lið fyrir sumarið þar sem ég gæti sótt mér spilmínútur og notið þess að spila fótbolta. Restin verður ákveðin þegar líður á sumarið en ég er opinn fyrir öllu.
Hvernig myndir þú lýsa leikstíl þínum?
Þykir alltaf jafn óþægilegt að lýsa sjálfum mér, fæ oftast að heyra að ég sé með góðann vinstri fót. Annars kann ég betur við að sýna ykkur stuðningsmönnum hvað ég get inn á vellinum.
Þú ert kantmaður en sérðu fyrir þér að geta leyst aðrar stöður af á vellinum ef með þarf?
Það er náttúrlega stór misskilningur, ég er fyrst og fremst miðjumaður, frekar sóknarþenkjandi en ekki. Hef í gegnum tíðina reyndar leyst allar sóknarstöður og tel mig geta gert það vel, en líður alltaf best miðsvæðis.
Einhver skilaboð til Leiknisfólks sem þú vilt koma til skila að síðustu?
Ég vil bara koma því fram hvað ég er spenntur fyrir sumrinu, er að koma inn í þrusu sterkan hóp sem býr mikið í. Sumarið er langt og með ykkar stuðningi hef ég fulla trú á að við munum snúa við blaðinu! Hlakka til að sjá Leiknisljónin í fullu fjöri sem fyrst, Áfram Leiknir!
#StoltBreiðholts