Fara á efnissvæði
IS EN PL

Lög Íþróttafélagsins Leiknis

1.gr. Heiti félagsins og heimilsfesti

Félagið heitir Íþróttafélagið Leiknir. Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík. Félagið hefur aðsetur að Austurbergi 1, Reykjavík.

2.gr. Markmið félagsins

Markmið félagsins er að stuðla að almennu heilbrigði og aukinni íþróttaiðkun í Efra Breiðholti, Reykjavík.

Aðal íþróttagrein félagsins er knattspyrna og skal á vegum félagsins iðkuð knattspyrna í samræmi við flokkaskiptingar KSÍ. Félagið skal taka þátt í mótum á vegum KSÍ og stuðla að því að iðkendur spili heiðarlega. Meðferð vímugjafa og tóbaks er með öllu óheimil í íþróttastarfi á vegum félagsins.

Stefnt skal að jöfnum hlut kvenna og karla í trúnaðarstörfum á vegum félagsins.

3.gr. Merki og litir

Í merki félagsins er ritað heiti þess, Leiknir. Aðallitir félagsins eru blár og vínrauður.

4.gr. Félagsmenn

Félagsmenn í félaginu eru allir iðkendur sem standa skil á æfingagjöldum til félagsins sem og foreldrar þeirra, leikmenn sem spila með 2. flokki og meistaraflokkum félagsins, þjálfarar og aðrir starfsmenn félagsins. Ennfremur allir þeir sem greiða árgjald til félagsins og eiga ársmiða á heimaleiki meistaraflokka Leiknis.

Atkvæðisbærir á fundum félagsins skulu allir iðkendur, skv. iðkendaskrá félagsins, sem hafa náð 18 ára aldri, leikmenn meistarflokka félagsins og félagsmenn sem greiða árgjald til félagsins skv. ákvörðun stjórnar. Einnig sitjandi stjórn, formaður unglingaráðs og formaður meistaraflokksráðs.

Félagsgjald skal ákveðið á aðalfundi og innheimt af aðalstjórn.

5.gr. Skipulag félagsins

Aðalfundur félagsins hefur æðsta vald í öllum málefnum félagsins sbr. grein 6.

Aðalstjórn félagsins fer með æðsta vald í málefnum félagsins á milli aðalfunda og mótar starfsemina í aðalatriðum. Aðalstjórn félagsins skal skipuð fimm mönnum og allt að þremur til vara: formanni, gjaldkera, ritara og tveim meðstjórnendum. Stjórnarmenn skipta sjálfir með sér störfum innan stjórnarinnar nema hvað formaður félagsins skal kjörinn sérstaklega.. Varamenn taka sæti á fundum skv. ákvörðun formanns.

Formaður aðalstjórnar skal kosinn á aðalfundi til tveggja ára í senn. Aðrir stjórnarmenn skulu kosnir á aðalfundi til tveggja ára í senn en heimilt er að kjósa stjórnarmenn til eins árs ef þörf er á. Gæta skal þess að stjórnarmenn séu kosnir á hverju ári, tveir og tveir í senn svo ávallt sé í stjórn félagsins fólk með nokkra reynslu.

Unglingaráð knattspyrnudeildar Leiknis fer með almennan rekstur vegna knattspyrnuiðkunar barna og unglinga á vegum félagsins upp að 16 ára aldri eða þegar iðkendur flytjast í 2. flokk. Unglingaráð skal skipað sex til tíu manns sem skipta með sér störfum að öðru leyti en því að aðalstjórn skal samþykkja kosningu formanns og gjaldkera unglingaráðs.

Meistaraflokksráð knattspyrnudeildar Leiknis fer með almennan rekstur vegna meistaraflokks karla og 2. flokks karla. Meistaraflokksráð skal skipað fimm manns sem skiptir með sér störfum. Aðalstjórn skal samþykkja kosningu formanns og gjaldkera meistaraflokksráðs.

Skipa skal meistaraflokksráð vegna meistaraflokks kvenna og 2. flokks kvenna ef þörf þykir og skulu gilda um það sömu reglur.

6.gr. Aðalfundur félagsins

Aðalfundur félagsins skal haldinn fyrir 1. maí ár hvert. Aðalfundur hefur æðsta vald í öllum málefnum félagsins. Rétt til fundarsetu og kosningarétt hafa allir atkvæðisbærir félagsmenn samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laganna. Kjörgengi til stjórnarstarfa hafa allir félagsmenn sem náð hafa 18 ára aldri. Heimilt er að kjósa menn til setu í aðalsstjórn og unglingaráði sem ekki eru félagsmenn skv. framangreindu og verða þeir aðilar þá jafnframt félagsmenn frá þeim tíma. Til aðalfundar félagsins skal boða opinberlega með sjö daga fyrirvara.

Dagskrá aðalfundar félagsins skal vera sem hér segir:

  • Kosning fundarstjóra og fundarritara
  • Skýrsla formanns
  • Skýrsla gjaldkera aðalstjórnar, kynning og umræður um endurskoðaða reikninga
  • Lagabreytingar og önnur löglega framborin mál
  • Kosning formanns aðalstjórnar
    Kosning aðalstjórnar félagsins og varamanna í stjórn.
  • Kosning löggilts endurskoðanda félagsins og tveggja
  • skoðunarmanna
  • Önnur mál

Tillögur til lagabreytinga og stofnun nýrra deilda skulu tilkynntar með aðalfundarboði, og skulu breytingatillögur lagðar fyrir kjörnefnd félagsins eigi skemur en fimm dögum fyrir aðalfund. Framboð til stjórnar eða annarra kjörinna embætta félagsins samkvæmt dagskrá aðalfundar skal skila til kjörnefndar eigi síðar en 5 dögum fyrir aðalfund.

Á aðalfundi ræður meirihluti atkvæða úrslitum mála nema að 2/3 hluta atkvæðisbærra félagsmanna sem mættir eru á aðalfund þarf til samþykktar lagabreytinga, til að taka ákvarðanir um sameiningu félagsins við annað félag, til að leggja félagið niður og til sölu á fasteignum félagsins. Kosning fer fram með handaupplyftingu nema fundarstjóri telji þörf á skriflegri kosningu. Aðalfundur telst löglegur ef löglega er til hans boðað.

7.gr. Félagsfundur

Aðalstjórn félagsins skal halda almennan félagsfund þegar þörf krefur. Skylt er aðalstjórn að boða til félagsfundar ef yfir 20 félagsmenn krefjast þess skriflega og skal þá tilkynnt fundarefni sem óskað er að rætt verði. Boða skal til almenns félagsfundar opinberlega með minnst tveggja sólarhringja fyrirvara. Almennur félagsfundur er löglegur ef löglega hefur verið til hans boðað.

8.gr. Starfssvið og heimildir aðalstjórnar

Aðalstjórn félagsins ber að efla félagið á allan hátt og gæta hagsmuna þess í hvívetna. Aðalstjórn hefur umráðarétt yfir öllum eignum félagsins og mótar starfsemi félagsins milli aðalfunda í aðalatriðum. Aðalstjórn sér um samninga félagsins og um varðveislu og ráðstöfun fjármuna og eigna félagsins.

Aðalstjórn ræður framkvæmdastjóra og starfsmenn félagsins-, skipar trúnaðarmenn félagsins og ákveður hverjir skuli sækja/sitja fundi fyrir hönd félagsins. Aðalstjórn félagsins er heimilt að skipa þær nefndir sem hún telur þörf fyrir en skal skipa þær nefndir sem greindar eru í 9. grein. Aðalstjórn getur enga fullnaðarályktun gert nema með samþykki meirihluta stjórnarmanna. Ef atkvæði eru jöfn ræður atkvæði formanns.

Fundir aðalstjórnar skulu að jafnaði haldnir í hverjum mánuði yfir vetrartímann og skal fundargerð rituð og varðveitt sérstaklega af ritara. Aðalstjórn skal funda með formönnum/fyrirsvarsmönnum deilda félagsins a.m.k. tvisvar sinnum á ári. Aðalstjórn ber ábyrgð á og hefur ákvörðunarvald vegna úthlutunar styrkja sem félagið fær. Aðalstjórn skal setja reglur eða staðfesta reglur unglingaráða vegna fjáröflunar og annarrar meðferðar fjármuna félagsmanna og félagsins. Aðalstjórn hefur heimild til að semja við önnur félög, stofnanir og einstaklinga um samstarf á vettvangi íþrótta og mannræktar.

9.gr. Fastanefndir félagsins

Unglingaráð knattspyrnudeildar Leiknis ber ábyrgð á knattspyrnuiðkun yngri flokka félagsins frá 8. flokki til 3. flokks karla og kvenna. Unglingaráð skal uppfæra reglulega iðkendalista knattspyrnudeildarinnar. Unglingaráð ákveður æfingagjöld í samráði við aðalstjórn og sér um innheimtu æfingagjalda iðkenda. Unglingaráð skal funda með foreldrum iðkenda a.m.k. einu sinni á ári og skipa foreldraráð í hverjum flokki.. Unglingaráð skal ásamt aðalstjórn Leiknis ráða þjálfara og stuðla að aukinni menntun þeirra. Unglingaráð sér um kaup á fatnaði fyrir þjálfara og helstu munum sem þarf til æfinga. Unglingaráð Leiknis sér ennfremur um fjáraflanir fyrir iðkendur og ýmsa viðburði á vegum félagsins, s.s. Breiðholtshlaup og uppskeruhátíð.

Meistaraflokksráð knattspyrnudeildar Leiknis ber ábyrgð á knattspyrnuiðkun í 2. flokki karla og meistaraflokki. Meistaraflokksráð stýrir fjáröflun vegna æfingaferða flokkanna og hefur umsjón með viðburðum á vegum þeirra. Meistaraflokksráð skal jafnframt vera þjálfurum meistaraflokks og aðalstjórnar innan handar í rekstri flokkanna s.s. við öflun styrkja fyrir félagið. Meistaraflokksráð skipar heimaleikjaráð sem fer með undirbúning fyrir leiki, gæslu á heimaleikjum o.fl. Formaður meistaraflokksráðs skal, ásamt aðalstjórn Leiknis, ráða þjálfara fyrir meistaraflokk. Meistaraflokksráð skal leitast við að skapa góða umgjörð um starf flokkanna í samræmi við stefnu félagsins.

Kjörnefnd skal tilnefnd af aðalstjórn a.m.k. 15 dögum fyrir aðalfund og skal hún skipuð þremur aðilum. Kjörnefnd skal sjá um boðun til aðalfundar og taka við framboðum til aðalstjórnar félagsins og formanns. Framboðum og tillögum að lagabreytingum skal skilað inn skriflega til kjörnefndar minnst fimm dögum fyrir boðaðan aðalfund.

Sögunefnd skal tilnefnd af aðalstjórn og skal hún skipuð þremur aðilum. Hlutverk sögunefndar er að halda til haga upplýsingum sem tengjast sögu félagsins og fyrrverandi og núverandi félagsmönnum. Sögunefnd skal leitast við að gera sögu félagsins aðgengilega fyrir alla félagsmenn og halda til haga eldri gerðum af búningum og fánum félagsins. Einnig annast nefndin varðveislu á myndasafni félagsins. Munir félagsins skulu varðveittir eftir því sem kostur er í félagsheimili Leiknis og vera sýnilegir eftir því sem mögulegt er.

Fánanefnd skal tilnefnd af aðalstjórn og skal hún skipuð tveim aðilum. Hlutverk fánanefndar er að varðveita fána félagsins sem eru í notkun á hverjum tíma, sjá um að nóg sé til af fánum til keppnisferða á vegum félagsins og að fánar félagsins séu notaðir við sem flest tækifæri þegar við á.

Öllum sem sitja í nefndum og ráðum á vegum félagsins ber að efla félagið á allan hátt og gæta hagsmuna þess í hvívetna. Þeir skulu einnig gæta þagmælsku í viðkvæmum málefnum sem koma til kasta nefndarmanna. Þá er þeim er sitja í nefndum og ráðum á vegum félagsins óheimilt að stofna til skulda eða skuldbindinga fyrir félagið án heimildar aðalstjórnar.

10gr. Reikningsár og reikningsskil

Reikningsár félagsins er almanaksárið. Reikningar skulu liggja frammi til skoðunar fyrir félagsmenn sólarhring fyrir aðalfund.

11.gr. Heiðursviðurkenningar

Aðalstjórn hefur heimild til að veita þeim félagsmönnum sem starfað hafa ötullega innan eða utan vallar heiðursviðurkenningu í formi heiðursmerkja. Aðalstjórn hefur einnig heimild til að kjósa heiðursfélaga félagsins ef stjórnin er sammála við val á slíkum heiðursfélaga.

12.gr. Aðild að samtökum

Félagið skal vera aðili að ÍSÍ og KSÍ. Íþróttafélagið Leiknir starfar sjálfstætt í samræmi við lög ÍSÍ og ber að hafna öllum þrýstingi hvort sem hann er af pólitískum, trúarlegum eða efnahagslegum toga.

13.gr. Slit félagsins

Hafi aðalfundur félagsins ekki verið haldnir í fimm ár samfleytt og hafi félagið ekki tekið þátt í íþróttamótum í sama tíma telst félagið óstarfhæft og skal starfsemi þess hætt. Eignir þess skulu renna til Reykjavíkurborgar til varðveislu í þrjú ár. Að þeim tíma liðnum er Reykjavíkurborg heimilt að ráðstafa öllum eignum félagsins hafi ekki komið fram ósk eða áhugi um endurstofnun félagsins.

14.gr. Gildistaka

Lög þessi voru samþykkt á auka aðalfundi þann 28. nóvember 2011. Breytingar á lögunum voru samþykktar á aðalfundi félagsins 30. mars 2015 , 12. apríl 2018 og 12. apríl 2023.

Reykjavík 13. apríl 2023