Sagan
Söguágrip
Leiknir er íþróttafélag í hjarta eins fjölmennasta hverfis Höfuðborgarsvæðisins, Breiðholtsins.
Í kringum 1970 byggðist hverfið upp á ótrúlegum hraða og fyrr en varði bjuggu hér ótal börn sem þurftu eitthvað að gera. Íþróttafélag Reykjavíkur flutti í Mjóddina neðan úr bæ en virtist hafa takmarkaðan áhuga á að þjónusta Efra-Breiðholt.
Því var Leiknir stofnaður árið 1973 af foreldrum í hverfinu - sem vildu vafalaust bara koma krökkunum sínum út úr húsi.
Bæjarblokkir og verkamannablokkir risu í stórum stíl. Raunar svo stórum að félagslegar áskoranir hafa fylgt hverfinu síðan, en það hafði ekki áhrif á metnaðinn á árunum eftir stofnun því fjölmargar deildir voru settar á laggirnar og félagið stórhuga.
Meðal annars tók goðsögnin Hemmi Gunn við nýstofnuðum meistaraflokki Leiknis í handbolta sem spilandi þjálfari.
Það er hægara sagt en gert að halda úti mörgum deildum með gríðarlega takmarkaða aðstöðu og fór það svo að iðkendur fóru að leita út fyrir hverfið í önnur félög. Innan nokkurra ára lognaðist félagið hálfpartinn útaf.
Félagið var svo rifið í gang af krafti árið 1984 með fótboltann í forgrunni auk körfuknattleiks.
Árið 1993 fékk Leiknisfólk gervigrasvöll sem bylti aðstöðunni. Árangur hjá knattspyrnudeildinni fór að vekja athygli en á sama tíma safnaði félagið gríðarlegum skuldum.
Um aldamótin stóð félagið frammi fyrir gjaldþroti og var mikill þrýstingur frá borgaryfirvöldum að sameina Leikni og ÍR. Öflugt unglingaráð sem samanstóð af foreldrum iðkenda tók við stjórnartaumum félagsins og lyftu algjöru grettistaki þegar þau fetuðu stíginn upp úr skuldasúpunni og burtu frá sameiningu.
Á meðan félagið vann í sínum málum fjárhagslega var meistaraflokkur félagsins að mestu byggður upp á heimamönnum. Með heimamann í brúnni líka byrjaði Leiknir að klifra upp um deildir. Árið 2007 var tekin fyrsta skóflustunga að nýju félagsheimili Leiknis og ári síðar kvöddum við endanlega gamla kofann þegar núverandi hús var tekið í gagnið.
Við náðum að festa okkur í sessi sem knattspyrnufélag í næst efstu deild þegar ný kynslóð Leiknisdrengja gekk upp í meistaraflokk; svokölluð gullkynslóð félagsins.
Þessir ungu en reynslumiklu Breiðholtsstrákar héldu tryggð við félagið og lyftu því loksins upp í efstu deild árið 2014, aftur með heimamenn í brúnni.
Þessir öflugu foreldrar í unglingaráði sem urðu að stjórn félagsins um aldamótin áttu mörg hver syni sem voru nú orðnir að mönnum og voru ýmist lykilmenn í liðinu, þjálfari og liðsstjóri.
Leiknir hefur lengi lagt áherslu á mikilvægi fjölmenningar. Í hverfi eins og okkar stöndum við frammi fyrir stærri áskorunum en flest félög á Íslandi. Leiknir sýnir og sannar á hverjum einasta degi hvernig íþróttir virka sem hreyfiafl til góðs í baráttu gegn rasisma og fordóma af öllu tagi.
Saga félagsins allt til dagsins í dag hefur einkennst af aðstöðuleysi, óeigingjörnu sjálfboðastarfi foreldra úr hverfinu og ungum heimamönnum. Þannig hefur Leiknir náð sínum árangri og skapað sína sérstöðu.
Við erum einstakur klúbbur — stolt Breiðholts.