Sjálfboðaliðastarf Leiknis
Eins og öll önnur íþróttafélög er Leiknir eingöngu starfhæft vegna mikillar vinnu fjölmargra ósérhlífinna sjálfboðaliða. Leiknir er ekki stofnun né hluti af samfélagsþjónustu Reykjavíkurborgar heldur eru það sjálfboðaliðarnir og starfsfólkið í húsi sem halda úti starfinu og án sjálfboðaliða væri félagið ekki starfrækt.
Það er pláss fyrir alla hjá Leikni – iðkendur og sjálfboðaliða
Ef þú finnur þig ekki í íþróttinni getur þú farið sem dæmi í dómgæslu, liðstjórn, aðstoðað við þjálfun, setið í ráðum, stjórn, foreldrafélaginu, séð um fjáraflanir, safnað styrkjum, aðstoðað með samfélagsmiðla/auglýsingar, aðstoðað á heimaleikjum og viðburðum og margt fleira.
Allir geta tekið þátt og haft áhrif. Hvernig?
Með því að taka þátt í stjórnum, mæta á aðalfundi og aðra fundi, seta í nefndum og ráðum og koma athugasemdum sínum á framfæri á viðeigandi stöðum.
Hvert sný ég mér ef ég vill vera með
Settu þig í samband við stjórnarmenn í viðkomandi stjórn eða við yngri flokkaráð: leiknirung@gmail.com og láttu vita af þér og að þú sért tilbúin(n) að koma að einstaka verkefnum. Hægt er að finna netföng stjórnarmanna og kvenna og unglingaráðs á heimasíðu félagsins en einnig er hægt að skrifa tölvupóst á: leiknir@leiknir.com til að bjóða fram þína aðstoð. Mættu á fundi og komdu þínum sjónarmiðum á framfæri. Allar upplýsingar um stjórnarmenn er að finna á heimasíðu félagsins, www.leiknir.com
Án sjálfboðaliða myndi ekkert félag vera til staðar
Þar sem Leiknir er íþróttafélag og er starfrækt sem félagsstarf þá er nauðsynlegt að sem flestir komi að þeim mörgu verkefnum sem falla til innan félagsins. Aðeins starfsmenn skrifstofu, íþróttaaðstöðu og þjálfarar þiggja laun fyrir sín störf, allt annað er framlag óeigngjarna sjálfboðaliða sem koma úr röðum foreldra, eldri iðkenda og annara velunnara/félagsmanna Leiknis.
Án virkra félagsmanna er ekkert félag
Leiknir er staðsett í einu af stærstu hverfum borgarinnar og hefur því mikilvægu hlutverki að gegna og mörg verkefni sem falla til að halda félaginu gangandi og þannig að saman náist þau markmið sem stefnt er að í almennu heilbrigði iðkenda ásamt árangri. Því sem fleiri virkir félagsmenn eru innan félagsins verður starfið allt auðveldara og ekki síður skemmtilegra.
Afhverju að taka þátt í sjálfboðaliðastarfi Leiknis?
- Fyrir ungu kynslóðina
Leiknir er til fyrir tilstilli foreldra sem stofnuðu félagið á sínum tíma og starfa saman að því markmiði að stuðla að heilbrigðu líferni og félagsþroska barna og unglinga í Breiðholti.
- Innsýn í starfið
Að taka þátt í barna og unglingastarfi félagsins, eða meistaraflokksstarfinu eða öðru, gefur manni innsýn í starfið. Æfingar hjá yngri flokkunum eru einnig góður vettvangur til skrafs og ráðagerða og ófáar góðar hugmyndirnar sem hafa vaknað eftir gott hliðarlínuspjall foreldra á leikjum!
- Tengslanetið stækkar
Það er ótrúlegt hvað gott sjálfboðaliða og foreldrastarf getur fært manni góða vini og kunningja fyrir utan hvað allir hagnast á því að tengjast og þannig eflist líka nærumhverfið og hverfið.
- Gefa af sér
Foreldrar eru alltaf velkomnir til að leggja hönd á plóg og stundum er hægt að aðstoða bara smá og stundum alveg fullt og það er allt í lagi! Þetta snýst um það að margar hendur vinna léttara og skemmtilegra verk.
- Skemmtilegt!
Það er alltaf mikil semming sem skapast þegar margir koma saman til að láta gott af sér leiða.
- Öflugra félag
Leiknir er mikið grasrótarfélag með hjartað á réttum stað en það verður aldrei stærra en fólkið á bakvið það og því mikilvægt að taka þátt í því að efla það.
Þetta skiptir okkur öll máli – að bæta félagið og umgjörðina -sem börnin okkar njóta svo góðs af!